Kristján Ingi skrifar

Kristján Ingi skrifar

Að leyfa fyrirtækjum að falla

Upp er komin sú krafa að öllu fyrirtækjum þarf að bjarga. Ætlast er til þess að ríkisvaldið bjargi öðru hverju fyrirtæki frá falli, sem menn hafa gegnum tíðina barist á móti og bölvað. En hverju er í raun verið að bjarga? Á ríkið að fjármagna hópuppsagnir?

Ferðaþjónustan er að taka út fyrstu bylgju þeirra áhrifa (e. first order effect) sem eru að skella á hagkerfinu. Um er að ræða flugfélög, rútufyrirtæki, gististaði, veitingahús, fyrirtæki sem sinna afþreyingu og þjónustufyrirtæki. Á fyrstu mánuðum kreppunnar eru stjórnendur í ferðaþjónustunni strax orðnir örvæntingafullir enda ástandið fordæmalaust og ekki sér fyrir endann á því þegar þessi pistill er skrifaður.

En hvers vegna á ríkið að hlaupa undir bagga og hvað fær það í staðin?

Í byrjun var hlutabótaleiðin kynnt til leiks, úrræði sem var þróað í hruninu. Þegar því var teflt fram í lok mars stendi í að allt myndi botnfrjósa, en þó var von að ástandið myndi lagast á skömmum tíma. Einnig var mikilvægt að halda ráðningarsambandi starfsfólks og atvinnurekenda virku.

Í dag er staðan önnur. Fleiri aðgerðir hafa verið kynntar sem kasta breiðara neti yfir atvinnugrein sem sér ekki til sólar út árið. Ljóst er að tekjur í ár verða í besta falli brot af því sem þær voru árið á undan. Því þarf að segja upp öllum þeim sem sinna ferðamönnum beint og geta ekki undirbúið sókn þegar betur viðrar.

Að segja upp fólki reyndist vera mjög dýrt þegar á hólminn var komið sökum uppsagnarfrests. Nú er staðan orðin þannig að ríkið hefur hlaupið undir bagga og er beinlínis að niðurgreiða stórar hópuppsagnir.

Þessi fyrirtæki þurfa að fara í þrot til að veita sterkari viðspyrnu þegar landamæri opnast*. Almenningur virðist standa í þeirri trú að við gjaldþrot hverfi hreinlega rúturnar, flugvélarnar og hótelin en svo er ekki. Þegar fyrirtæki fer í þrot er það tekið yfir af lánadrottnum félagsins. Oftar en ekki er það lánadrottnum fyrir bestu að koma starfseminni aftur á stað eftir að samið hefur verið um kröfur fallna félagsins. Starfsmenn eiga forgangskröfu í þrotabúið sem er tryggð af ríkinu og fá því alltaf sitt.

*(Vert er þó að nefna að oft á sér stað þekkingartap í svona aðstæðum)

Þegar betur viðrar verða þessi félög því endurreist. Fólk fær störfin aftur og flest fer í sama horf með aukinni eftirspurn. Ef við gefum okkur að greinin nái sér ekki á strik út árið, þá er enginn aðgerðarpakki stjórnvalda nógu stór til að bjarga fyrirtækjunum. Skattgreiðendur munum því standa eftir með sárt enni eftir að hafa ausað inn pening í björgunaraðgerðir sem í besta falli fresta því sem koma skal.

Ríkið slær lán fyrir aðgerðapökkunum, semá endanum eru fjármagnaðir af framtíð landsins. Eftir situr því skuld við komandi kynslóðir vegna aðgerðapakka sem reyndust líklega vonlausir.

Því þurfum við að spyrja okkur, hversu langt viljum við fara í að beita nýjum hagfræðikenningum til að „bjarga ástandinu“? Gjaldþrot eru nauðsynleg í því kerfi sem hefur verið byggt upp. Með því að forða fyrirtækjum frá gjaldþroti með ríkisstyrkjum er verið að fjarlægja nauðsynlegan varnagla úr kerfinu sem býr til vonda hvata eftir að óværan er liðin hjá.

Áhættusækni í góðæri með væntingum um ríkisaðstoð þegar í harðbakkann slær er eitraður kokteill.

Hversu miklu er ríkið tilbúið að eyða í aðgerðir sem munu sennilega ekki duga?

Væru aðgerðirnar aðrar ef kjörtímabilið væri ekki að klárast?