Leiðin út úr covid - Að snúa vörn í sókn

Íslendingar hafa lengi barið af sér harðindi með mikilli eljusemi og dugnaði. Hvert áfallið á fætur öðru hefur dunið á þjóðinni gegnum aldirnar en þrátt fyrir allt stöndum við hér í dag til að segja frá því. Þjóðin sem barði sig í gegnum öll þessi átök hafði ekki jafn gott aðgengi að innviðum og vísindum eins og við lukkulega gerum í dag og erum við því með öll vopn í hendi til að takast á við erfiða tíma.

Plágan

Nú geysar yfir holskefla hamfara í formi plágu og efnahagslegra áhrifa sem af henni stafa. Búið er að lyfta grettistaki í baráttunni og hafa allir sem hér búa lagst á árar til að sigla okkur út úr þessum ólgusjó. Því miður er orðið ljóst að ólgusjórinn mun ekki ganga yfir á vikum, heldur á mánuðum eða jafnvel árum. Bátsverjar eru orðnir þreyttir á síendurteknum róðrasprettum og eru sumir hverjir að gefast endanlega upp. Ljóst er að báturinn þarf að breyta um stefnu, þó erfitt sé að sjá einhvern annan möguleika en að halda áfram að róa á meðan sjórinn gengur yfir bátinn.

Fórnin

Í þessum faraldri hafa vísindin blessunarlega verið í fyrirrúmi. Þríeykið hefur leitt sókn vísindamanna til að takast á við faraldurinn miðað við bestu vitneskju hvers tíma. Eins og sakir standa erum við í þriðju bylgju faraldursins. Talað er um sóttvarnarþreytu og hljóðið í náunganum er farið að þyngjast allverulega. Fólk með undirliggjandi sjúkdóma og þau sem eldri eru hafa þurft að draga sig úr samfélaginu svo mánuðum skiptir.  Níu samlandar okkar hafa látist og allt að átta hundruð sitja eftir með langvarandi einkenni. Efnahagslegar hamfarir dynja á fyrirtækjunum, og þá sérstaklega þeim sem þjónusta okkur þegar við hittumst, gleðjumst og borðum saman. Erfitt hefur verið að kveðja ástvini sína með reisn. Ljóst er að fórnirnar sem samfélagið er að færa um þessar mundir eru gífurlegar og fæstar þeirra er hægt að meta til fjár.

Vonin

En það er vonarneysti. Von sem byggir á þeim styrkleikum sem gerir Ísland að öfundsverðum stað til að búa á. Við erum nefninlega rík þjóð. Við sem þjóð búum við mestu hagsæld og öryggi sem nokkur manneskja sem á undan okkur hefur komið hefur búið við. Við treystum hvoru öðru. Við beitum vísindum af kostgæfni til að leysa úr flóknum úrlausnarefnum. Við búum á eyju.

Nú þegar allir hafa fært þessar fórnir ber okkur skylda að snúa vörn í sókn og beita læknisfræðilega öruggum landamærum til að stöðva innflutning smita. Ísland er lokað kerfi og við sáum það eftir fyrstu bylgju að Ísland var veirufrítt land í tæpar fimm vikur. Engum gat órað fyrir annari eins viðspyrnu og átti sér stað í júlí þegar landinn flyktist um landið og naut tímans með ástvinum.

Örugg landamæri

Það er vísindaleg sátt um að að veiran getur lifað í allt að sautján daga í einstakling án þess að hún brjótist fram með einkennum. Að beita einhverju öðru en fjórtán til sautján daga sóttkví er því óábyrgt og mun einungis skila smitum inn í landið. Aðrar áherslur á landamærunum hafa ekki náð að verja þjóðina eins og kom í ljós á dögunum, þegar tilkynnt var að einungis þrír af fjórum smituðum einstaklingum eru gripnir með tvöfaldri skimun og fimm daga sóttkví. Í framhaldinu af þessum breytingum á landamærum getum við svo stillt okkur saman til þess að berja pláguna niður í eitt skipti fyrir öll. Hvers vegna er þessari stefnu ekki beitt?

Hagur okkar allra

Mörg hagsmunaöfl börðust fyrir mildari landamærastefnu, en það er orðið kýrskýrt að það var óleikur til lengri tíma fyrir þá hagsmuni. Að vera í skjóli frá veirunni og njóta þeirra ávaxta sem lífið hefur upp á að bjóða, með nánu samneyti við hvort annað er líka ómetanlegt. Viðsnúningur samfélagsins og bjartsýni þessara aðgerða mun búa til grunn sem hægt er að byggja á til lengri tíma.

Þessi grein er því ákall um breytingar. Setjum okkur í fyrsta sæti. Beitum landamærastefnu sem gagnast okkur öllum. Setjum í gang fjórtán daga sóttkví sem skilyrði við komu til landsins og bjóðum þau velkomin sem vilja taka þátt í þeirri veirufríu uppbyggingu sem hér mun eiga sér stað.

Sýna Athugasemdir