Kristján Ingi skrifar

Kristján Ingi skrifar

Tveggja stafa verðbólga - Hvað gerist næst?

Fyrir sléttu ári síðan skrifaði ég grein um þá óráðsíu sem var komin upp í hagkerfum heimsins og þá augljósu vegferð sem kæmi í kjölfarið. Þrátt fyrir að greinin hafi vakið upp mikið fjaðrafok á sínum tíma sökum svartsýni, þá hefur hún að öllu leiti spilast eins og hún var lögð upp. Þegar okkur líður eins og allt sé að fara fram úr sér, þá er raunverulega tími til að setjast niður og fara yfir næstu afleiðingar sem geta spilast út.

Rýrnun á virði peninga

Það eru mikil vonbrigði að horfa upp á aukna verðbólgu þessa dagana og hvernig farið er með peningana okkar. Seint verður sagt að þessi atburðarás hafi ekki verið viðbúin þar sem öllu var bjargað í Covid faraldrinum og notkun á orðinu “peningaprentun” var daglegt brauð. Fleiri þarna úti hljóta að spyrja sig hvenær trúleysi almennings á peningakerfinu verði raunverulega leyst úr læðingi.

Verðbólgan þrálát og komin til að vera

Í dag var tilkynnt að nú væri tveggja stafa verðbólga mætt sem vekur upp ljótar minningar um verðbólgudraug fortíðarinnar. Á sama tíma er ævintýralegur hallarekstur á öllum hagkerfum heimsins og Ísland er þar engin undantekning. Pólitíkin í heiminum og embættismenn (sér í lagi seðlabankar) bera fulla ábyrgð á því hver staðan er, þar sem þau hafa ýkt sveiflur síðustu áratugi með því að bjarga öllu á erfiðistímum í stað þess að leyfa fyrirtækjum að falla til kenna lexíu inn í næstu góðæristíma. Í kjölfarið hafa alþingismenn þor að draga seðlabankastjóra á fund með efnahags- og viðskiptanefnd í síðustu viku, og hrauna yfir hann fyrir þær sakir að standa þó máttlausa vörn um gæði peninga og hindra verðbólguna.

Skuldasöfnun sem mun aldrei verða greidd

Ríki heims hafa sankað að sér skuldum frá fjármálakreppunni, þrátt fyrir loforð um að greiða niður fyrri skuldir á tímum góðæris. Nú eru þeir tímar að baki, og flest lönd búin að hlaða upp óraunhæfum skuldum sem sér ekki fyrir endann á. Ekki er augljóst að ríki heimsins taki sig saman og fari að skila afgangi (bandaríkin rekin með halla 48 af síðustu 52 árum) og því þarf verðbólgan að leika lausum hala út áratuginn til að vinna niður verðmæti þessara skulda á kostnað almennings og rýra verðgildi peninganna okkar á sama tíma.

Íslenska undrið - Húsnæðismarkaðurinn 🥶

Eitt í lokinn. Algengt er í umræðunni á Íslandi að húsnæðismarkaðurinn sé talinn ónæmur fyrir umrótinu í heiminum, en ljóst að hann mun taka mikið högg eins og aðrar eignarflokkar undanfarna mánuði, bæði að nafn- og raunvirði vegna aukins aðhalds peningastefnunnar og aðgengi að fjármagni. Þetta höfum við séð í okkar helstu nágrannalöndum. Smá von er þó á lofti í framhaldinu, þegar seðlabankar neyðast til að kasta inn handklæðinu og kaupa ríkisskuldabréf sem enginn annar fjárfestir vill kaupa, enda eru þau misverðlögð vegna of mikilla afskipta seðlabanka á seinni árum. Það ætti að baktryggja verð á raunverulegum eignum, en á móti má spyrja sig hvers virði verða þær mældar í raungæðum (en ekki pening). Til að veita lesendum smá innsýn inn í raunhagkerfið, þá var verðtryggt lán upp á 35 milljónir að hækka um 500 þúsund á milli mánaða.

Því vaknar upp hugleiðing höfundar. Var íbúðaskortur á Íslandi síðustu ár eða offramboð á peningum? Munu sömu aðilar og töluðu um íbúðaskort tala um offramboð á íbúðum þegar framboð af peningum verður ekkert? Það gleymist oft að ræða peninga, sem eru miðjan í jöfnunni, en þeir stjórna okkur mun meira en við þorum að viðurkenna.

P.s. Greinin er ekki sú jákvæðasta, en svona er staðan. Við megum ekki gleyma að daglegt líf heldur áfram og við þurfum að hvetja fólk í nærumhverfi okkar til dáða. Heimur batnandi fer, þó að ástandið eigi eftir að dökkna talsvert fyrst.