Kristján Ingi skrifar

Kristján Ingi skrifar

Heimskreppan er hafin

Áratugurinn hófst á mikilli bjartsýni og von um betri tíma. Fyrsti mánuður ársins var frábær og minnti á baráttuandann um aldamótin, en strax í febrúar breyttust aðstæður, og það hratt.

Plágan kemur til Evrópu

Í febrúarlok kemur kóvid fyrst til landsins og almenningur er undrandi og sleginn yfir þessum nýja vágesti. Plágan skall á þjóðina af fullri ákefð strax í byrjun, þar sem lítill skilningur var á væntum áhrifum veiru með óþekkta eiginleika. Heimsmyndin versnaði hratt, og leiddi þar mikið mannfall, áratuga samstarfi landa var slitið einhliða með óséðum landamæralokunum og fólk var neytt með valdboði eða eigin sannfæringu til að halda sig heima.

Hagkerfið og skuldasöfnunin

Óvissan setti strik í reikninginn og á meðan ferðamaðurinn gufaði upp hætti fólk að fara út og eyða peningum eins og það gerði venjulega. Fyrirtæki rúlluðu því hvert á fætur öðru sem leiddi til þess að ríkið ákvað að kasta út breiðu neti í þeirri von um að bjarga sem mestu. Skuldasöfnunin sem fyrirséð var að myndi fylgja var varhugaverð, og ég skrifaði grein um málið í maí 2020. Dómínóáhrifin leiddu í kjölfarið til fjöldauppsagna, sem bitnuðu helst á ungu kynslóðinni sökum starfsreynsluskilyrða.

Seðlabankinn lét sig ekki vanta í krísunni og lækkaði meginvexti sína niður í 0.75%, sem hefði verið óhugsandi nokkrum árum á undan. Blessunarlega þurfti ekki að beita magnbundinni íhlutun af krafti eins og aðrir seðlabankar gerðu með því að kaupa ríkisskuldabréf og hlutabréf.

Í kjölfarið tók við ein mesta eignarbóla seinni ára, þar sem peningamagn í umferð var fordæmalaust, og komandi kynslóðir voru prísaðar út úr markaðnum um ókomin ár.

Vesturveldin bregðast þriðja heiminum

Til að loka kóvid kaflanum ber okkur að líta til baka til að sjá hvernig okkur tókst til að stýra heiminum út úr háskanum. Heilt yfir er erfitt að fyllast stolti yfir þeirri heildarmynd sem vesturveldin spiluðu fram. Lönd gripu til þeirra ráða að hugsa fyrst og síðast um eigin ríkisborgara, beitt var útflutningsbönnum til að hindra flæði bóluefna til annarra landa og grundvallar lögvarin mannréttindi voru sumstaðar virt að vettugi. Hjálpargögn og bóluefni bárust seint og illa utan Evrópu og Bandaríkjanna. Á meðan íslendingar sem sátu heima í upphituðu húsunum sínum fengu boð í fyrstu, aðra, og stundum þriðju sprautuna, var stór hluti heimsins ekki búinn að fá sína fyrstu sprautu á seinni hluta síðasta árs. Þetta leiddi til þess að staðan í vanþróaðri ríkjum varð miklu verri en við hefðum getað ímyndað okkur, og ýtti undir vonbrigði með þá heimsmynd sem vesturveldin stóðu fyrir. Niðurstaðan var því hver fyrir sig í stað þess að vera allir fyrir einn. En til að halda í bjartsýnina fyrir betri heimsmynd, þá réttum við bara úr okkar hlut á komandi árum, ekki satt?

En þá skall á stríð í Evrópu

Hernaðarleg stórveldi hafa blessunarlega ekki átt í beinu hernaðarbrölti sín á milli frá seinni heimstyrjöld, og hafa síðustu 75 ár því verið þau friðsælustu í mannskynssögunni. Vissulega má benda á mörg minni stríð, sem hafa ollið mikilli eyðileggingu, eins og t.d. í Sýrlandi, en það er ekkert í líkingu við beinni átök stærri hernaðarvelda.

Vandamálið við stríðið sem Putin er að há, er að það er engin leið fyrir hann að sigra í þessari stöðu. Því verður að teljast afar ólíklegt að ástandið muni batna á næstunni. Á meðan er beitt hörðustu refsiaðgerðum sem heimurinn hefur séð (að NK undanskyldu) og því er búið að mála allt landið út í horn.

Það verður að teljast mikil lukka að sú samstaða sem náðst hefur með Úkraínu er hreint út sagt ótrúleg og á réttilega að fylla okkur von í komandi átökum. Við megum hinsvegar ekki gleyma að Rússland býr yfir margfalt meiri hernaðarmætti og til lengri tíma er Úkraína því líkleg til að verða völtuð, þrátt fyrir baráttuanda og samstöðu. Það þarf því nýtt útspil vesturvelda til að hrekja björninn á brott.

Verðbólgan leyst úr læðingi

Ef við skoðum næstu áhrif á hagkerfum heimsins þá er augljóst að hreyfingarnar verða miklar, og mögulega umfram það sem fólk sá eftir síðustu bankakreppu árið 2008. Rússland er langstærsti útflytjandi heims á mörgum lykilhrávörum s.s. málmum, olíu, hveiti og höfrum og því er alls óvíst hvort að þessar vörur rati á markaði þegar Rússland er skorið út úr hagkerfum heimsins. Til að bæta gráu ofan á svart er Úkraína fimmti stærsti útflytjandi heims á hveiti og hafa markaðsaðilar spáð allt að 400% hækkun innan árs. Ef stríðið hættir ekki samstundis, mun lítil sem engin uppskera vera á þessum svæðum sem eykur á vandræðin.

Þessi áhrif munu í framhaldinu smitast til Íslands. Við munum því að öllum líkindum sjá tveggja stafa verðbólgutölur aftur á Íslandi fyrir lok árs. Útséð að verð á matvælum, olíu og öllum mikilvægum tólum og tækjum mun hækka hraðar en við höfum séð síðastliðin áratug. Í ofanálag er styrking krónunnar að ganga til baka sem eykur á innlendu áhrifin. Bensín á íslandi í 300 krónum gæti því bara verið byrjunin.

Aukin verðbólga í heiminum leiðir af sér meiri óstöðugleika. Upphaf borgarastyrjalda má oft rekja til átaka út af mat og matvælaverði. Þetta er skiljanlegt, því ef fólk hefur ekki efni á mat, þá neyðist það til að berjast fyrir sér og sínum í örvæntinu.

En hvað gerist þá?

Tól allra seðlabanka heimsins voru fullnýtt í kófinu. Seðlabanki Bandaríkjanna stendur eftir bitlaus þegar stríð hefst í Evrópu. Skuldamörkuðum var rústað. Eignir voru þandar út í geim. Ef seðlabankar grípa ekki til frekari loftfimleika hið snarasta mun hagkerfið fara hratt versnandi úr þeim svimandi hæðum sem það er í um þessar mundir.

Í ofanálag veldur stríð neikvæðum hagkerfisspíral sem erfitt getur reynst að stoppa; útgöld til varnarmála verða margfölduð á kostnað annarra málaflokka, stríðið verður fjármagnað með skuldsetningu og hugarheimur fólks er almennt bundinn við hræðslu og lægri væntingar.

Það er því voðalega lítið á teikniborðinu sem getur verið jákvætt fyrir hagkerfi heimsins. Mikilvægt er því að gera ráðstafanir og undirbúa það sem koma skal.

Heyrið þið í tónlistinni? Spurning hvort að það sé ráðlagt að finna sér góðan stól.

P.s. Greinin er ekki sú jákvæðasta, en svona er staðan. Við megum ekki gleyma að daglegt líf heldur áfram og við þurfum að hvetja fólk í nærumhverfi okkar til dáða. Heimur batnandi fer, þó að ástandið eigi eftir að dökkna talsvert fyrst.